Hagnaður móðurfélagsins Atorka Group fyrstu níu mánuði ársins fyrir skatta nam 6,4 milljörðum króna og arðsemi eigin fjár var í kringum 62% á tímabilinu, segir í tilkynningu til Kauphallar Íslands. Hagnaður eftir skatta nam 5,4 milljörðum króna.


Hagnaður félagsins eftir skatta á þriðja ársfjórðungi nam 555 milljónum króna, samanborið við 224 milljónir á sama tíma í fyrra, segir Atorka.

Atorka Group birtir bæði móðurfélagsuppgjör og samstæðuuppgjör sem hvoru tveggja eru gerð í samræmi við IFRS. Vegna munar sem gildir samkvæmt IFRS um gerð móðurfélags- og samstæðuuppgjöra er munur á afkomu móðurfélags og samstæðu.

Í tilkynningunni bendir Atorka Group á að fjárfestar verði að kynna sér bæði uppgjörin til að fá rétta mynd af stöðu félagsins.

Hagnaður samstæðu Atorku fyrstu níu mánuði ársins fyrir skatta nam 217 milljónum króna, en 32 milljónum eftir skatta á þriðja ársfjórðungi. Tap var af rekstri samstæðunnar á öðrum ársfjórðungi, sem nam 669 milljónum, samanborið við 766 milljóna króna hagnað á fyrsta ársfjórðungi.

EBITDA Jarðborana var 1.155 milljónir króna sem er aukning um 33% frá fyrra ári. Leiðrétt EBITDA fyrirtækja í plastiðnaði var 975 milljónir króna. Leiðrétt EBITDA félaga á heilbrigðis- og fyrirtækjamarkaði var 410 milljónir króna sem er aukning um 60% frá fyrra ári. Eiginfjárhlutfall samstæðunnar í lok september var 24,1%