Hagnaður Atorku Group, móðurfélags, eftir skatta nam fjórum milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi 2006 en á sama tímabili í fyrra nam hagnaður eftir skatta 659 milljónum króna.

Hagnaður móðurfélagsins fyrir skatta á fyrsta ársfjórðungi 2006 nam um 4,7 milljörðum króna á sama tímabili árið 2005 nam hagnaður fyrir skatta um 511 milljónum króna.

Atorka Group gerir tvö árshlutauppgjör fyrir tímabilið 1/1-31/3 2006. Bæði uppgjörin eru gerð í samræmi við alþjóðlegan reikningsskilastaðal IAS 34. Annarsvegar er það árshlutauppgjör móðurfélagsins Atorku Group, sem miðast við reglur í alþjóðlegum reikningsskilastöðlum IAS 27 og IAS 39 og hinsvegar samstæðureikningur Atorku Group, og allra dótturfélaga, sem miðast við IAS 27.

Afkoman er mismunandi þar sem reikningshaldsleg meðhöndlun eignarhluta í dótturfélögum er ekki sú sama. Atorka hefur ekki áður birt samstæðureikning í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla IFRS.

Heildareignir móðurfélagsins námu 30,6 milljörðum króna á fyrsta fjórðungi 2006 en á sama tímabili fyrir ári námu heildareignirnar 19,9 milljörðum.

?Rekstur Atorku gekk vel á ársfjórðungnum sem markast bæði af hagstæðum ytri aðstæðum á mörkuðum en ekki síður af því að rekstur í fyrirtækjaverkefnum félagsins gekk vel ef tekið er mið af árstíðarsveiflum sem einkenna félög í okkar eignasafni. Atorka mun horfa til nýrra verkefna á næstu misserum auk þess að halda áfram að styðja við frekari vöxt þeirra félaga sem í dag eru í eignasafni félagsins," segir Magnús Jónsson forstjóri Atorku Group í tilkynningu.