Hagnaður móðurfélags Atorku Group eftir skatt á fyrstu níu mánuðum ársins var 6,8 milljarðar króna. Hagnaður eftir skatt á þriðja ársfjórðungi var 734 milljónir króna. Heildareignir í lok september voru 61,4 milljarðar króna. Eigið fé var 22,9 milljarðar króna í lok september. Arðsemi eigin fjár var 39% á ársgrundvelli.

Eiginfjárhlutfall er 37% og hagnaður á hlut á fyrstu 9 mánuðum ársins 2,1.

"Afkoma Atorku fyrstu níu mánuði ársins var góð þrátt fyrir krefjandi markaðsaðstæður. Atorka innleysti verulegan hagnað með sölu á einu af fjárfestingarverkefnum sínum.  Jafnframt fjárfesti félagið í nýju verkefni, Geysi Green Energy og er þar kjölfestufjárfestir. Við sjáum veruleg tækifæri með þátttöku í uppbyggingu á Geysi og hefur félagið í dag sterka stöðu til þess að verða leiðandi í nýtingu á jarðvarma í heiminum.  Atorka hefur í auknum mæli verið að beina sjónum sínum til Asíu, meðal annars með fjárfestingum í heilbrigðisgeiranum og infrastrúktúr, nú síðast með kaupum á um 10% hlut í leiðandi félagi í uppbyggingu á vatnshreinsistöðvum í Kína.  Ljóst er að með aukinni velmegun munu Kínverjar fjárfesta verulega í bættum lífsgæðum og sjáum við því mikil tækifæri í fjárfestingum því tengdu. Atorka er með sterka fjárhagsstöðu og í góðri stöðu til að nýta sér þau tækifæri sem munu skapast á komandi misserum," segir Magnús Jónsson forstjóri Atorku í tilkynningu.

Hagnaður Atorku Group eftir skatta í samstæðureikningum Atorku Group hf. fyrstu 9 mánuði ársins var 2,5 milljarðar króna. Hagnaður á þriðja ársfjórðungi var 2,7 milljarðar króna.  Tekjur á fyrstu 9 mánuðum ársins voru 53,2 milljarðar króna. Heildareignir samstæðunnar í lok september voru 104,7 milljarðar króna.Eigið fé var 13 milljarðar í lok september.