Hagnaður Avion Group eftir skatta nam 43 milljónum dollara (2,6 ma.kr) á fyrstu tíu mánuðum síðasta árs. Til samanburðar var hann 15,4 milljónir dollara (942 mkr.) allt árið 2004. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 61,4 milljónum dollara (3,8 ma.kr) sem er 4,3% af tekjum félagsins.

Rekstrartekjur félagsins námu 1,4 milljarði dollara (85,7 ma.kr) og jukust um 182% samanborið við árið 2004. Rekstrargjöldin námu 1.340 milljónum dollara (82 ma.kr) og jukust um 170% milli ára.

?Afkoma Avion Group var góð á árinu og vöxturinn mikill. Við erum ánægð með mikinn áhuga fjárfesta á félaginu. Nú þegar viðskipti með félagið eru hafin í Kauphöllinni verður sýnileiki okkar meiri og hluthöfum fjölgar ört," sagði Magnús Þorsteinsson stjórnaformaður í tilkynningu sem félagið sendi frá sér nú í morgun.

Stjórn Avion Group mun leggja það til við aðalfund að ekki verði greiddur arður fyrir árið 2005. Avion Group og forveri þess, Air Atlanta Icelandic, greiddu ekki arð fyrir árin 2002, 2003 og 2004. Avion Group stefnir að því að greiða arð til hlutahafa sinna í framtíðinni. Ákvarðanir um arðgreiðslur eru teknar á aðalfundum félagsins og eru ákvarðar út frá fjárhagsstöðu félagsins.

Á árinu breyttist efnahagsreikningur fyrirtækisins mikið. Aðalástæða þess eru kaup Avion Group á öðrum félögum.

Heildareignir voru 1.519 milljónir dollara (93 ma.kr) í lok árs sem er 477 milljóna dollara (29,2 ma.kr) aukning frá fyrra ári. Eigið fé jókst úr 67 milljónum dollara (4,1 ma.kr) í 461 milljón (28,2 ma.kr) á árinu. Eiginfjárhlutfall var 30% í lok tímabilsins. Arðsemi eigin fjár var 17%.