Hagnaður af rekstri Avion Group, móðurfélags Atlanta, Íslandsflugs og Exel Airways, nam tveimur og hálfum milljarði króna eftir skatta í fyrra en samanlagður hagnaður fyrirtækjanna árið á undan nam tæplega 316 milljónum króna. Mest munaði um hagnað Excel Airways sem var tæpar 15 milljónir punda eða tæplega 1,8 milljörðum íslenskra króna og jókst hagnaður félagsins um 4,3 milljónir punda eða um 520 milljónir íslenskra króna frá fyrra ári.

Hagnaður Air Atlanta Icelandic nam 14,5 milljónum Bandaríkjadala eða 923 milljónum íslenskra króna og jókst um 29 milljónir dala á árinu en tap félagsins á árinu 2003 nam 14,3 milljónum dala. Skýringin er talin vera að á því ári færði fyrirtækið mikið í afskriftareikning. Hlutdeild Air Atlanta í hagnaði Excel var sex milljónir dala og var raunhagnaður ársins því 8,5 milljónir dala eða um 540 milljónir króna. Íslandsflug hagnaðist um 2,8 milljónir dala á árinu og samsvarar það ríflega 178 milljónum íslenskra króna.

Spá veltu upp á 89 milljarða árið 2005

Heildarvelta Avion Group nam tæpum 1,1 milljarði dala sem samsvarar ríflega 69 milljörðum íslenskra króna. Þetta er yfir væntingum sem fyrirtækið hafði sett sér en markmiðið var að ná einum milljarði dala í veltu á árinu. Hlutdeild Excel í veltunni er rúmlega helmingur og hluti Air Atlanta tæplega þriðjungur. Að sögn Magnúsar Þorsteinssonar, stjórnarformanns og aðaleiganda Avion Group er enn stefnt á skráningu Avion Group á íslenskan hlutabréfamarkað undir lok þessa árs og gengur undirbúningur samkvæmt áætlun. Þá er stefnt á 1,4 milljarða dala veltu sem samsvarar 89 milljörðum íslenskra króna. Stjórn Avion Group kom saman á miðvikudag en í henni sitja auk Magnúsar þeir Arngrímur Jóhannsson, Eggert Magnússon, Eamonn Mullaney og Gunnar Björgvinsson. Hjá Avion Group starfa 3.200 manns og hefur félagið alls 66 flugvélar til umráða.