Hagnaður Barclays, þriðja stærsta banka Bretlands, dróst saman um 76% á þriðja ársfjórðungi samanborið við sama tímabil í fyrra. Fjárfestingarbankastarfsemi bankans skilaði tapi.

Hagnaður fyrir skatta á tímabilinu nam 327 milljónum punda, jafnvirði um 58 milljarða króna. Á þriðja ársfjórðungi í fyrra nam hagnaðurinn tæplega 1,4 milljörðum punda. Barclays Capital, sem heldur utan um fjárfestingarstarfsemi bankans, tapaði 182 milljónum punda, jafnvirði um 33 milljarða króna, samanborið við 369 milljóna punda hagnað í fyrra.