Hagnaður Baugs á árinu 2003 var 9,5 milljarðar eftir skatta og var eigið fé í árslok tæpir 28 milljarðar. Eiginfjárhlutfall var 50%.

Í tilkynningu frá félaginu segir að góð afkoma félagsins stafi að meginstofni til af óinnleystum hagnaði af fjárfestingum félagsins í Bretlandi einkum vegna eignar félagsins á ríflega 22% hlut í Big Food Group plc. Aðrar fjárfestingar þar í landi hafa einnig skilað góðri ávöxtun en á árinu 2003 var fjárfest í Hamleys leikfangabúðunum, Oasis tískuvörukeðjunni, Julian Graves heilsuvörukeðjunni og LxB fasteignafélagi. Baugur Group hf. er nú kjölfestufjárfestir í alls 9 félögum hér á landi og erlendis og jafngildir velta þessara félaga um 130 milljörðum króna á ári. Hjá þessum félögum starfa samtals um 9.500 manns. Miklar vonir eru bundnar við að verðmæti hluta félagsins í þessum fyrirtækjum eigi eftir að aukast enda hafa þau öll verið að eflast. Gildir það jafnt um skráðu félögin og hin óskráðu. Í því sambandi má benda á, að EBITDA hagnaður Oasis á sl. ári jafngildir um 4,5 milljörðum króna, en Baugur Group hf. á 57% í félaginu. Þegar hagnaður Baugs Group er metinn er vert að hafa í huga að á sama tíma hefur þurft að afskrifa meira en 2,2 milljarða króna hjá félaginu vegna gjaldþrots Bonus Stores í Bandaríkjunum og einnig hefur verið gert ráð fyrir áætlaðri skattakvöð vegna hugsanlegra skattbreytinga, sem gætu fylgt í kjölfar frumskýrslu skattrannsóknarstjóra, en hún var afhent félaginu föstudaginn 4. júní sl.

Líkt og fram hefur komið í fréttum að undanförnu mun félagið auka umsvif sín og fjárfestingar erlendis en draga úr vægi starfsemi sinnar á Íslandi. Baugur Group hf. hefur myndað sterk viðskiptatengsl við margar af virtustu fjármálastofnunum Bretlands og mun í samstarfi við þær og aðra fjárfesta freista þess að nýta margvísleg fjárfestingartækifæri þar í landi, einkum á sviði verslunar og fasteignareksturs. Félagið mætir mikilli velvild erlendis og meðal almennings á Íslandi þar sem félagið og tengd fyrirtæki eins og Hagkaup og Bónus eru ár eftir ár í hópi vinsælustu fyrirtækja landsins, ef marka má skoðanakannanir. Fyrirtækið mun því áfram treysta stoðir kjarnastarfsemi sinnar á Íslandi, einkum í verslunar- og fasteignarekstri tengdra fyrirtækja, en draga úr öðrum umsvifum. Í samræmi við þessa stefnumörkun hafa Baugur Group hf. og tengd félög selt eignir fyrir um 13 milljarða króna á undanförnum vikum, en innleystur hagnaður af þessari eignasölu er um 5 milljarðar króna hjá viðkomandi fyrirtækjum.

Eins og áður getur hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins sent félaginu frumskýrslu sína og sér því fyrir endann á skattrannsókninni, en hún hófst með húsleit og haldlagningu gagna hinn 17. nóvember 2003. Andmælafrestur er til 25. júní nk. og í kjölfarið má búast við að endanleg skýrsla skattrannsóknarstjóra verði send til ríkisskattstjóra til afgreiðslu síðar í sumar eða í haust. Skattrannsóknin er sprottin upp úr lögreglurannsókn embættis ríkislögreglustjórans, en sú rannsókn hófst 28. ágúst 2002 í kjölfar ásakana Jóns Geralds Sullenberger í garð þeirra Jóns Ásgeirs Jóhannessonar forstjóra og Tryggva Jónssonar, þáverandi aðstoðarforstjóra. Báðir hafa staðfastlega haldið fram sakleysi sínu og ekkert hefur komið fram hjá félaginu sem bendir til þess að stjórnendur hafi brotið á því að mati endurskoðenda.