Hagnaður Baugs Group á árinu 2005 nam 28,0 milljörðum króna eftir skatta, þar af eru 15. milljarðar kr. innleystur hagnaður. Þetta kemur fram í frétt frá fyrirtækinu. Heildareignir Baugs Group voru bókfærðar á 145 milljarða króna í lok desember 2005. Eigið fé var 62,9 milljarðar króna og eiginfjárhlutfall félagsins 43%. Arðsemi eigin fjár nam 78,7% á árinu 2005.

Góð afkoma félagsins stafar af innleystum og óinnleystum hagnaði af fjárfestingum félagsins í Bretlandi, Danmörku og Íslandi en Baugur Group er kjölfestufjárfestir og leiðandi söluaðili þekktra vörumerkja í þessum þremur löndum.

"Það er auðvitað sérstaklega ánægjulegt að hagnaður félagsins byggist ekki á einni eða tveimur fjárfestingum, heldur á þeim hátt í 30 fyrirtækjum sem Baugur Group er kjölfestufjárfestir í. Þetta sýnir betur en margt annað hversu miklum árangri við höfum náð á undanförnum árum. Nú er dreifingin mun meiri, bæði á milli landa sem og á milli fjölda sterkra félaga sem starfa á mismunandi sviðum smásölu, fasteigna og fjárfestingastarfsemi, auk fjarskipta og fjölmiðlastarfsemi," sagði Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs Group.

Velta félaganna nam á síðasta rekstrarári um 950 milljörðum króna og EBITDA hagnaður þeirra var um 40 milljarðar króna. Í eigu þessara fyrirtækja eru 3.500 verslanir og hjá þeim starfa 62 þús. manns á Íslandi, Bretlandi og Norðurlöndum.

Baugur Group hefur aukið fjárfestingar í skráðum félögum og er í dag á meðal helstu fjárfesta í FL Group hf., Dagsbrún hf., Mosaic Fashions hf. og Keops í Danmörku.

Staða Baugs Group er sterkari en nokkru sinni fyrr. Félagið hefur byggt upp eignasafn sem samanstendur af félögum með þekkt vörumerki sem öll eiga það sammerkt að bjóða neytendum betri vöru og betri þjónustu en þekkist annarsstaðar. Þekking og reynsla starfsmanna Baugs Group á smásölu og fjárfestingastarfsemi hefur nýst þessum félögum í uppbyggingarstarfsemi þeirra og gefið þeim forskot í samkeppni.

?Eins og ég hef marg oft sagt þá er eina leiðin til að hafa betur í samkeppni að leitast stöðugt við að þjóna viðskiptavinum betur en aðrir, þetta er það sem við höfum að leiðarljósi í allri okkar starfsemi, sagði Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs Group ennfremur.

Tólf stærstu fjárfestingar Baugs Group eru eftirfarandi eftir vægi:

1. FL Group
2. Mosaic
3. Keops
4. Dagsbrún
5. Stoðir
6. Iceland
7. Hagar
8. French Connection
9. Julian Graves
10. Booker
11. LXB II
12. Magasin

Félagið mun áfram leita hagstæðra fjárfestingartækifæra og leitast við að efla starfsemina enn frekar.