Hagnaður bandarísku afþreyingar og raftækjaverslunarrisans Best Buy dróst saman um 19% milli ára á öðrum ársfjórðungi en samkvæmt tilkynningu frá félaginu var miklu fjármagn eytt á tímabilinu til að betrumbæta verslanir félagsins.

Samkvæmt frétt Reuters nam hagnaður Best Buy á öðrum ársfjórðungi 202 milljónum Bandaríkjadala (um 18,7 milljarðar ísl.kr.) sem gerir 48 cent á hvern hlut samanborið við 250 milljón dala hagnað á sama tíma í fyrra (um 23,1 milljarður ísl.kr.) eða 55 cent á hvern hlut.

Hagnaður félagsins er nokkuð undir væntingum en greiningaraðilar á vegum Reuters höfðu gert ráð fyrir að hagnaður félagsins yrði um 57 cent á hvern hlut.

Eins og fyrr segir jókst rekstrarkostnaður Best Buy töluvert eða um 17% á ársfjórðungnum. Þá er meðtalinn kostnaður vegna endurnýjunar verslana, aukins umsvifa á yfirstjórn félagsins en auk þessu hefur Best Buy komið sér upp sölubásum í öðrum verslunum sem hefur, að sögn Reuters kostað nokkurt fjármagn.

Tekjur Best Buy á tímabilinu jukust um 12% og námu um 9,8 milljörðum Bandaríkjadala sem er lítillega umfram væntingar greiningaraðila.

Þá jókst sala í verslunum sem hafa verið opnar lengur en 14 mánuði um 5,3% en í heildina jókst salan um 12% á tímabilinu þannig að nýjar verslanir Best Buy virðast ganga vel að sögn viðmælanda Reuters.