Hagnaður námurisans BHP Billiton jókst um 28% á fjárhagsárinu sem lauk 30. júní síðastliðinn og nam samtals 13,42 milljörðum Bandaríkjadala. Undirliggjandi hagnaður félagins hækkaði um 35% á tímabilinu, sem var nokkuð yfir væntingum greiningaraðila. Félagið segir að þrátt fyrir að von sé á samdrætti í bandaríska hagkerfinu, sé vöxtur í alþjóðahagkerfinu öflugur sem geri það að verkum að horfur fyrirtækisins fyrir næsta fjárhagsár eru góðar. Gengi hlutabréfa BHP Billiton hækkaði um tæplega fimm prósent í kjölfar afkomutilkynningarinnar.