Hagnaður þýska bílaframleiðandans BMW nam tæpum 300 milljón evrum á þriðja ársfjórðungi þessa árs og dróst saman um 63%.

Þetta kemur fram í uppgjörstilkynningu frá BMW.

Þá kemur fram að sala félagsins dróst saman um 9% á ársfjórðungnum og nam um 12,6 milljörðum evra.

Því er ljóst að forsendur fyrir afkomuspá félagsins á þessu ári eru brostnar en í tilkynningu félagsins kemur fram að erfiðar aðstæður á fjármálamörkuðum auk hækkandi gengis evru hafi gert félaginu erfitt fyrir.

Þá sagði Norbert Reithofer, forstjóri BMW á kynningarfundi að ómögulegt væri að segja til um afkomu félagsins í árslok miðað við aðstæður á mörkuðum.