BNP Paribas, stærsti banki Frakklands að markaðsvirði, greindi frá því í gær að hagnaður fyrirtækisins á fyrsta ársfjórðungi ársins hefði hækkað um 25% frá því á sama tímabili í fyrra. Nam hagnaður félagsins á fyrstu þremur mánuðum ársins samtals 2,51 milljörðum evra.

Þessi afkoma var vel yfir væntingum greiningaraðila sem höfðu að meðaltali spáð hagnaði upp á 1,99 milljarða evra. BNP Paribas hefur líkt og margir aðrir bankar í Vestur- Evrópu lagt mikla áherslu á að efla markaðsstöðu sína á þróunarmörkuðum (e. emerging market) til að vega upp á móti minnkandi vexti heima fyrir.