Hagnaður Boeing á 2. ársfjórðungi var 852 milljónir Bandaríkjadala, eða 1,16 dalir á hlut. Á sama tíma í fyrra nam hagnaður félagins 1,05 milljarði dala, 1,35 dal á hlut.

Þessi samdráttur í hagnaði er einkum til kominn vegna seinkunar á að félagið afhendi herflugvél sem Ástralir hafa pantað frá Boeing. Vélin gengur undir nafninu Wedgetail og hefur framleiðslu hennar seinkað um 4 mánuði.

Boeing reiknar með að selja 475-480 flugvélar á þessu ári. Sala á fyrri helmingi ársins hefur verið 241 flugvél. Boeing jók framleiðslu á árinu til að mæta eftirspurn eftir sparneytinni 737 vél sinni.

Hlutabréf Boeing hafa lækkað um 36% frá því þau náðu methæð á síðasta ári.