Hagnaður bandaríska flugvélaframleiðandans Boeing dróst saman um 50% á fyrsta ársfjórðungi þessa árs og nam 610 milljónum Bandaríkjadala samanborið við 1,2 milljarða dala á sama tíma í fyrra.

Tekjur félagsins hækkuðu um 3% og námu á tímabilinu 16,5 milljörðum dala.

Mikill samdráttur hefur orðið í flugiðnaðinum út um allan heim og áður hefur verið greint frá því að bæði Boeing og eins Airbus, stærsti samkeppnisaðili Boeing, hafa hægt á framleiðslu sinni þar sem hægt hefur á pöntunum á nýjum vélum. Það sem af er þessu ári hefur Boeing til að mynda sagt upp tæplega 10 þúsund manns eða 6% allra starfsmanna félagsins.

Minnkandi hagnaður er í tak við spár greiningaraðila og í viðskiptum í gær hækkaði félagið um 4%.

Boeing afhenti 121 flugvél á fyrsta ársfjórðungi samanborði við 115 vélar á sama tíma í fyrra. Það gefur þó ekki rétt mynd af núverandi ástandi þar sem þær vélar voru pantaða, og að mestu leyti greiddar, áður en stærstu hagkerfi heims fóru að dragast verulega saman á síðasta ári.