Bandaríski flugvélaframleiðandinn Boeing hagnaðist um 695 miljónir Bandaríkjadala á þriðja ársfjórðungi þessa árs eða um 96 cent á hvern hlut samanborið við 1,1 milljarð dala hagnað á sama tíma í fyrra eða 1,44 dali á hvern hlut.

Samkvæmt Bloomberg fréttaveitunni má rekja minnkandi hagnað til nýlegs verkfalls starfsmanna.

Í uppgjörstilkynningu telur stjórn Boeing að verkfall starfsmanna annars vegar og tafir í afhendingu hins vegar hafi kostað hvern hluthafa um 60 cent.

Þá drógust tekjur félagsins saman um 7% milli ára og voru á tímabilinu um 15,3 milljarðar dala.

Um 27 þúsund starfsmenn Boeing hófu verkfallsaðgerðir í byrjun september til að mótmæla lágum launum, úthýsingu verkefna og öðrum þáttum. Verkfallsaðgerðir hafa staðið yfir síðan þá með hléum.

Á morgun munu forsvarsmenn verkalýðsfélaga annars vegar og Boeing hins vegar setjast að samingaborði.