Hagnaður búlgarska fjarskiptafyrirtækisins BTC nam 133,6 milljónum leva (5,9 milljörðum króna) á fyrstu níu mánuðum ársins, samanborið við 177 milljónir leva (7,9 milljarða króna) á sama tímabili í fyrra, en það er 24,6% lækkun, segir í tilkynningu.

Austurríska fjárfestingafélagið Viva Ventures á 65% hlut í BTC, en Novator, sem er í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar, hefur tryggt sér kaupréttinn á 100% hlut í Viva Ventures, sem er í eigu bandaríska fjárfestingasjóðsins Advent.

Kostnaður BTC vegna uppsetningar á nýju þráðlausu kerfi, Vivatel, sem var opnað 5. nóvember, nam 400 milljónum leva (17,8 milljörðum króna). Fyrirtækið mun hafa fjárfest 400 milljónum leva til viðbótar í uppfærslu á föstum línum og þráðlausum kerfum sínum.