Hagnaður búlgarska símafyrirtækisins Bulgarian Telecommunications Company (BTC) jókst um 28,4% á fyrstu sex mánuðum ársins 2006 í 145 milljónir búlgarska leva (6,8 milljarða íslenskra króna) segir í tilkynningu til kauphallarinnar í Sofíu.

Novator, fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, hefur tryggt sér kauprétt á 65% eignarhlut í BTC í gegnum eignarhaldsfélagið Viva Ventures.

Þrátt fyrir hagnaðaraukninguna dróst sala á tímabilinu saman í 496 milljónir leva úr 509 milljónum leva á sama tíma árið 2005.

Ástæðan fyrir því að hagnaðurinn jókst á tímabilinu er að kostnaður minnkaði á tímabilinu og nam 329 milljónum leva, samanborið við 383 milljónir leva á fyrstu sex mánuðum ársins 2005.

Martin Staub, nýr forstjóri félagsins, segir að áætlað sé að fækka störfum í tæknideild fyrirtækisins en að ný störf verði til í sölu- og markaðsdeild BTC. Áhersla verður lögð á að stækka farsímaeiningu BTC, segir Staub, sem kallast Vivatel.