Hagnaður búlgarska bankans Economic and Investment Bank (EIBank) þrefaldaðist á árinu sem leið, segir í tilkynningu frá bankanum. Novator, fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, á 18,27% hlut í bankanum og hefur fengið leyfi til að eignast 34% hlut frá samkeppnisyfirvöldum í Búlgaríu.

Hagnaður ársins 2005 nam 33,76 milljónum leva, sem samsvarar um 1,3 milljörðum króna, samanborið við rúmlega 10 milljón leva hagnað árið 2004. Hagnaður bankans jókst á tímabilinu þrátt fyrir að lánasafn bankans hafi dregist saman um 4,6%.

EIBank er áttundi stærsti banki Búlgaríu í eignum talið. Bankinn er skráður á hlutabréfamarkað í Sofíu, höfuðborg Búlgaríu, og lækkaði gengi bréfa félagins um 10,6% á mánudaginn þrátt fyrir hagnaðaraukninguna. Lokagengið var 42 lev.