Hagnaður Byrs nam 7.929 milljónum króna árið 2007 en 2.676 milljónum króna árið áður. Hagnaður eftir skatta jókst um 196,3% milli ára.

Um er að ræða mesta hagnað í sögu félagsins, segir í fréttatilkynningu.

Hagnaður Byrs fyrir tekjuskatt árið 2007 nam 9.614 milljónum króna en var 3.200 milljónir króna árið áður. Aukningin er 200%.

Hreinar vaxtatekjur námu 2.703 milljónum króna og jukust um 51,2% milli ára.

Hreinar tekjur af öðrum fjáreignum á gangvirði námu 5.538 milljónum króna árið 2007 og jukust um 1.158% milli ára.

Aðrar rekstrartekjur jukust um 3.914% milli ára og námu 4.291. milljónum króna.

Arðsemi eigin fjár var 44% á ársgrundvelli.

Eiginfjárhlutfall skv. CAD reglum var 40,2%.

Á árinu 2006 sameinuðust Sparisjóður vélstjóra og Sparisjóður Hafnarfjarðar en nafni sameinaðs sparisjóðs var síðar breytt í Byr. Reikningsskilalega miðaðist samruninn við 30. apríl 2006. Í nóvember 2007 samþykkti Fjármálaeftirlitið samruna Byrs og Sparisjóðs Kópavogs og reikningsskilalega miðast sá samruni við 1. nóvember 2007. Framangreindir samrunar hafa því veruleg áhrif á samburðarhæfni fjárhæða og hlutfalla áranna 2006 og 2007.