Hagnaður tölvuleikjaframleiðandans CCP, sem heldur úti netleiknum EVE-online, eftir skatta nam tæplega 6,2 milljónum dollara, rúmlega 800 milljónum króna, samkvæmt ársreikningi félagsins sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum.

Tekjur jukust úr 41,6 milljónum dollara, um 5,4 milljörðum króna, í 51,7 milljónir dollara, um 6,7 milljarða króna, milli ára.

Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP, segir reksturinn hjá CCP í fyrra hafa verið alveg í takt við áætlanir. Gengið hafi vel að stækka áskrifendahópinn að tölvuleiknum EVE-online en hann telur nú um 340 þúsund áskrifendur samkvæmt ársskýrslu fyrirtækisins.

Hilmar Veigar segist reikna með því að CCP bæti við sig um 200 starfsmönnum á þessu ári, miðað við stöðuna eins og hún var í upphafi árs.