Orkufyrirtækið Chevron tilkynnti í dag að tekjur félagsins á fyrsta ársfjórðungi jukust um 10%, en metháu olíuverði er þar helst að þakka.

Hagnaður fyrirtækisins hækkaði upp í 5,17 milljarða Bandaríkjadala, en var 4,72 milljarðar á fyrsta ársfjórðungi í fyrra. Hagnaðurinn í ár var 2,48 dalir á hlut, en greiningaraðilar höfðu að meðaltali spáð hagnaði upp á 2,41 dal á hlut.

Olíuverð í Bandaríkjunum var á fjórðungnum að meðaltali tæplega 98 dalir á tunnu, sem er 70% hærra en var í fyrra. Hlutabréf Chevron hafa hækkað um tæplega 2% á þessu ári.