Hagnaður gosdrykkjaframleiðandans Coca Cola nam 1,5 milljörðum dollara á fyrsta ársfjórðungi. Um er að ræða hagnaðaraukningu upp á 19% frá sama fjórðungi í fyrra, og í frétt Bloomberg er afkoman sögð hafa verið yfir meðalspá greiningaraðila. Veiking dollarans á síðastliðnum mánuðum er meðal áhrifavalda í góðri afkomu auk landfræðilega dreifðar starfsemi.

Þrátt fyrir góða afkomu lækkuðu bréf í Coca Cola lítillega í byrjun viðskiptadags í Bandaríkjunum.

Neysla gosdrykkja hefur farið minnkandi í Bandaríkjunum, en Coca Cola hefur reynt að mæta þeirri þróun með því að breyta vöruframboði sínu, til dæmis með rannsóknum á ýmsum jurtum og bætiefnum til að bæta út í drykki fyrirtækisins.