Credit Suisse, annar stærsti banki Sviss, tilkynnti í dag að hagnaður bankans á fjórða ársfjórðungi síðasta árs hefði dregist saman um 72% vegna minni tekna af verðbréfaviðskiptum og afskrifta upp á 1,3 milljarða svissneskra franka, sökum taps af bandarískum undirmálslánum og skuldsettum lántökum.

Afskriftir Credit Suisse voru undir meðalspá greinenda, en bankinn hafði á þriðja ársfjórðungi þegar afskrifað 2,2 milljarða franka. Til samanburðar námu afskriftir UBS, stærsta banka landsins, tæplega 18 milljörðum franka á seinni helmingi síðasta árs.

Samtals nam hagnaður Credit Suisse 1,33 milljörðum franka á fjórðungnum. Það var lítillega undir spá 11 sérfræðinga sem Bloomberg-fréttaveitan leitaði til, en þeir gerðu að meðatali ráð fyrir hagnaði upp á 1,42 milljarða franka.

Brady Dougan, forstjóri Credit Suisse, vildi ekki tjá sig um horfur á fjármálamörkuðum á þessu ári. Hann sagði hins vegar að bankinn væri vel í stakk búinn til að mæta bæði erfiðum tímum og góðum. Fjármálasérfræðingar segja að ákvörðun Credit Suisse um að auka arðgreiðslur til hluthafa fyrir allt síðasta ár um 12% endurspegli, trú stjórnenda á bæði kjarnastarfsemi bankans og einkabankaþjónustu.