Hagnaður svissneska bankans Credit Suisse nam 1,89 milljörðum svissneskra franka (102 milljörðum króna) á þriðja ársfjórðungi, samanborið við 1,92 milljarða svissneskra franka (103,8 milljarða króna) á sama tímabili í fyrra, en það er 1% lækkun, segir í frétt Dow Jones.

Greiningaraðilar höfðu spáð að hagnaðurinn næmi 1,64 milljörðum svissneskra franka (88,7 milljarða króna.)

Samdráttur varð í tekjum bankans af hlutabréfaviðskiptum og lægð var í viðskiptum yfir sumartímann. Bankinn segir að horfur fyrir árið í heild sinni séu enn góðar og spáir einnig aukningu hagnaðar á næsta ári.

Íslensku bankarnir hafa átt í samstarfi við Credit Suisse, meðal annars í skuldabréfaútgáfu.