Hagnaður Danske Bank á fyrsta ársfjórðungi lækkaði um 33% frá því á sama tíma fyrir ári. Samtals nam hagnaður bankans 2,57 milljörðum danskra króna, borið saman við 3,82 milljarða árið 2007. Afkoma bankans var undir væntingum, en meðalspá greinenda hljóðaði upp á 2,88 milljarða danskra króna í hagnað.

Hreinar rekstrartekjur Danske Bank drógust saman um 6,4% á fjórðungnum, einkum vegna minni markaðsviðskipta. Hreinar vaxtatekjur jukust hins vegar um 8,8%. Bankinn þurfti að afskrifa 900 milljónir danskra króna í tryggingafyrirtækinu Danica Pension. Sökum samdráttar í hagnaði tilkynnti Danske Bank jafnframt um breytta afkomuspá fyrir árið 2008; bankinn gerir nú ráð fyrir að hagnaður muni dragast saman um 6-13%, í stað 7% aukningar.