Sala bandaríska fyrirtækisins Dell, stærsta framleiðanda tölva til einkanota, á síðasta ársfjórðungi nam 13,46 milljörðum dollara og var lítillega undir 13,5 milljarða dollara markmiðinu sem fyrirtækið hafði sett sér. Hagnaður félagsins á fjórðungnum nam 667 milljón dollurum eða 26 sentum á hlut. Hagnaðurinn hefur því dregist saman um rúm 12% milli ára en til samanburðar var hagnaðurinn í fyrra 749 milljón dollarar eða 29 cent á hlut eins og kom fram í Vegvísi Landsbankans.

Þar kom einnig fram að hagnaðurinn var þó lítillega yfir væntingum sérfræðinga. Rekja má minni hagnað til 280 milljón dollara gjaldfærslu skatta í tengslum við hagnað sem uppruninn er erlendis. Þessu til viðbótar var tilkynnt um að Dell hefði uppfært árlegt sölumarkmið sitt og stefnir félagið nú að því að árleg sala nemi 80 milljörðum dollara. Ekki kom fram hvort Dell hefði sett sér tímamörk hvað sölumarkmiðið varðar en sérfræðingar búast við að félagið nái þessu markmiði á næstu þremur árum.

Forsvarsmenn Dell búast við að sala fyrsta ársfjórðungs þessa árs verði 13,4 milljarðar dollara sem er heldur undir væntingum sérfræðinga sem að jafnaði búast við 13,5 milljarða dollara sölu. Í kjölfar þess lækkuðu bréf Dell um 4% og því ljóst að að fjárfestar hafa tekið fréttunum um minni sölu á fyrsta ársfjórðungi illa þrátt fyrir að hagnaður Dell á fjórða ársfjórðungi hafi verið lítillega yfir væntingum sérfræðinga segir í Vegvísi Landsbankans.