Deutsche Bank, stærsti banki Þýskalands, náði hagnaðartakmarki sínu fyrir árið 2005 og lýsti yfir í gær að hann stefndi á að ná 25% ársávöxtun eigin fjár í framtíðinni, fyrir skatt. Hagnaðurinn nam 6,4 milljörðum evra, eða 491 milljarði íslenskra króna og hækkaði um 58% frá árinu 2004. Jafngilti hagnaðurinn 25,7% ávöxtun eigin fjár og var hann að mestu þakkaður stórlega bættri afkomu fjárfestingarbankahluta Deutsche Bank segir í frétt Viðskiptablaðsins í dag.

Afkoma Deutsche Bank á fjórða ársfjórðungi, 1,3 milljarðar evra, var hins vegar verri en ella vegna greiðslu upp á 203 milljónir evra til þeirra sem fest höfðu fé í Grundbesitz fasteignafjárfestingasjóðnum. Starfsemi hans var stöðvuð í desember og hafin vinna við að meta eignir hans upp á nýtt, en þetta mál hefur valdið miklu fjaðrafoki innan bankans.

Þessi tala í uppgjörinu staðfestir frétt Financial Times fyrr í vikunni, um að sjóðurinn yrði aðeins færður niður um 3%, en hann nemur sex milljörðum evra. Margir höfðu búist við að niðurfærslan yrði allt að 10%.

Fyrirtækja- og fjárfestingarbankastarfsemi Deutsche Bank skilaði 4,3 milljarða evra, 330 milljarða króna, hagnaði fyrir skatta. Var það 57% aukning frá fyrra ári og nam þremur-fjórðu af heildarhagnaði samstæðunnar.

Hagnaður af eignastýringu hækkaði um 44% og nam 597 milljónum evra. Ef ekki var tekið tillit til 81 milljóna evra gjalda sem tengdust sölu á hluta starfseminnar og 220 milljóna evru gjalda sem tengdust endurskipulagningu nam hagnaðurinn 736 milljónum evra.

Hreinar tekjur hækkuðu um 17%

Í heildsölubankastarfsemi hagnaðist Deutsche um einn milljarð evra, 77 milljarða króna, en að teknu tilliti til endurskipulagningar nam hagnaðurinn 897 milljónum evra, eða 69 milljörðum króna. Hreinar tekjur hjá allri samstæðunni hækkuðu um 17% og námu 25,6 milljörðum evra á árinu 2005, eða 1.966 milljörðum króna og var hluti fyrirtækja- og heildsölubankasviðs 15,9 milljarðar evra.

Josef Ackermann, forstjóri bankans, sagði í yfirlýsingu í tilefni af uppgjörinu: "Deutsche Bank náði sannarlega frábærum árangri á árinu 2005, með metframmistöðu hjá fyrirtækja- og heildsölubankasviði, þjónustu við einstaklinga og eignastýringu. Við náðum fjárhagslegum markmiðum okkar, þökk sé vexti í grundvallarstarfsemi, ströngu aðhaldi í kostnaði, áhættu og fjármagni, og mikilli áherslu á kjarnastarfsemi."