Hagnaður Þormóðs ramma ? Sæbergs hf. fyrstu 9 mánuði ársins 2004 var 126 milljónir króna, en var á sama tímabili í fyrra 407 milljónir króna. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði, nam 641 milljón króna, samanborið við 713 milljónir á sama tímabili í fyrra, sem er 18% af rekstrartekjum á móti tæpum 20% á sama tíma 2003.

Rekstrartekjur á tímabilinu námu 3.526 milljónum króna samanborið við 3.629 milljónir á fyrra ári. Rekstrargjöld voru 2.885 milljónir króna, en voru á sama tímabili 2003, 2.916 milljónir króna. Áður hefur komið fram í tilkynningu frá félaginu að framlegð af rekstrinum á þessu ári, er nokkuð undir því sem áætlanir í upphafi árs gerðu ráð fyrir. Skýringa á lakari framlegð er helst að leita í háu gengi krónunnar, háu eldsneytisverði og lakari aflabrögðum fyrr á árinu, á tegundum sem eru félaginu mikilvægar.

Heildareignir 30. september námu 7.335 milljónum króna og heildarskuldir voru 5.103 milljónir króna. Eigið fé 30. september var 2.232 milljónir króna og hafði lækkað um 524 milljónir frá áramótum. Eiginfjárhlutfall var 30,4%

Hátt gengi íslensku krónunnar og hátt eldsneytisverð setja mark sitt á rekstur félagsins, eins og annarra sjávarútvegsfyrirtækja, um þessar mundir. Félagið hefur tímabundið hætt rækjuveiðum. Múlaberg og Sólberg hafa haldið til annarra veiða en Stálvík hefur verið lagt. Hráefni til rækjuvinnslu er nú alfarið innflutt. Verð á afurðum frystitogara hafa hækkað nokkuð í erlendri mynt að undanförnu og aflabrögð frystiskipa hafa verið góð.