Vörusala SH nam 21,6 milljörðum kr. samanborið við 16,2 milljarða árið áður á fyrstu þremur mánuðum ársins. Aukningin nemur 33% og 48% ef tekið er tillit til styrkingar krónunnar. Vörusala fjórðungsins var í samræmi við áætlanir. Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði nam 573 milljónum samanborið við 459 milljónir árið áður. EBITDA nam 741 milljón samanborið við 620 milljónir og var EBITDA hlutfall 3,4% en það var 3,8% á sama tímabili 2004.

Hrein fjármagnsgjöld aukast verulega milli ára og nema 299 milljónum samanborið við 102 milljónir. Ástæður þess eru aukin skuldsetning vegna fjárfestinga að undanförnu og hækkandi vaxtastig í helstu viðskiptalöndum. Auk þess eru gjaldfærðar 32 milljónir vegna lækkunar á markaðsverði skráðra hlutabréfa í eigu félagsins. Á fyrsta ársfjórðungi 2004 nam tekjufærsla vegna þessa 67 milljónum. Í kjölfar innleiðingar á alþjóðlegum reikningsskilastöðlum færir félagið skráð hlutabréf á markaðsverði og er gengisbreyting færð í gegnum rekstrarreikning í stað eigin fjár. Vegna þessa má gera ráð fyrir að mun meiri sveiflur verði í fjármagnsliðum og um leið afkomu félagsins en áður.

Hagnaður tímabilsins nam 191 milljón sem er aðeins lægra en rekstraráætlanir félagsins gáfu til kynna. Hagnaður á sama tímabili á árinu 2004 nam 234 milljónum.

Veltufé frá rekstri nam 438 milljónum króna samanborið við 481 á fyrsta ársfjórðungi 2004. Handbært fé frá rekstri nam 1.919 milljónum en var 2.136 milljónir árið áður. Nettó fjárfestingarhreyfingar námu 235 milljónum.

Efnahagur SH hefur breyst verulega í kjölfar samrunans við Sjóvík ehf. Heildareignir í marslok námu 48,8 milljörðum og jukust um 13,6 milljarða frá ársbyrjun. Fastafjármunir aukast um 8,6 milljarða þar af hækka óefnislegar eignir um 7,1 milljarð. Eigið fé nam í lok tímabilsins 9,9 milljörðum króna og hefur aukist um 6,6 milljarða króna á tímabilinu. Aukningin stafar fyrst og fremst af útgáfu nýrra hlutabréfa í tengslum við samrunann við Sjóvík ehf. Eiginfjárhlutfall nam 20% í lok mars samanborið við 9% í ársbyrjun Vaxtaberandi skuldir jukust á tímabilinu úr 22,7 milljörðum í 27,6 milljörðum.

Um rekstrarhorfur segir félagið í tilkynningu sinni til kauphallarinar að rekstur samstæðunnar gekk vel á flestum markaðssvæðum á fyrsta ársfjórðungi og er reiknað með að svo verði áfram. Gripið hefur verið til aðgerða til að snúa rekstri Icelandic France og Icelandic USA við.

Áfram er unnið að samþættingu fyrirtækjanna í Bretlandi og er gert ráð fyrir að því verði að fullu lokið í ágúst sem mun skila bættri afkomu.

Í kjölfar sameiningarinnar við Sjóvík ehf. verður farið í umfangsmikla stefnumótunarvinnu hjá samstæðunni og er gert ráð fyrir að framtíðar stefnumörkun verði kynnt í ágúst.

Þegar er hafin vinna við sameiningu Icelandic USA og Samband of Iceland í Bandaríkjunum.

Samhliða sameiningar- og stefnumótunarvinnu er unnið að endurskoðaðri rekstraráætlun fyrir sameinað félag