Hagnaður Sparisjóðs Hafnarfjarðar fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2005 nam 214 milljónum króna fyrir skatta samanborið við 339 milljónir króna á sama tímabili árið 2004. Þegar tekið hefur verið tillit til skatta var hagnaðurinn 183 milljónir króna og drógst saman um 33,7% miðað við sama tímabil 2004.

Vaxtatekjur námu 1.803 milljónum króna og jukust um 32,6% miðað við sama tímabil á árinu 2004. Vaxtagjöld námu 1.142 milljónum króna og jukust þau um 36,6%. Hreinar vaxtatekjur námu 661 milljón króna en voru 524 milljónir króna á sama tímabili á árinu 2004 og hækka þær um 26,3% milli ára.

Aðrar rekstrartekjur námu 421 milljón króna á tímabilinu samanborið við 695 milljónir króna á sama tímabili 2004 og lækkuðu um 39,4%. Tekjur af hlutabréfum og öðrum eignarhlutum voru 115 milljónir króna en voru 88 milljónir á sama tímabili 2004 og hækkuðu um 31,3%. Þjónustutekjur lækkuðu úr 231 milljón króna í 195 milljónir króna eða um 15,8%. Gengishagnaður af innlendum og erlendum veltuverðbréfum nam 162 milljónum króna samanborið við 418 milljónir króna á sama tímabili 2004.

Rekstrargjöld námu 768 milljónum króna á tímabilinu samanborið við 652 milljónir króna á sama tímabili 2004, jukust þau um 17,7% milli tímabila. Hlutfall rekstrarkostnaðar af tekjum á tímabilinu var 70,9% og hækkaði úr 53,5% frá því á sama tíma á síðasta ári.

Gjaldfærsla starfslokasamnings

Laun og launatengd gjöld námu 444 milljónum króna á tímabilinu en voru 330 milljónir króna á sama tímabili 2004, jukust þau um 34,6% á milli tímabila. Á tímabilinu var gjaldfærður áætlaður kostnaður vegna starfslokasamninga en það skýrir stóran hluta hækkunar á launum og launatengdum gjöldum. Annar rekstrarkostnaður nam 296 milljónum króna á tímabilinu en var 279 milljónir króna á sama tímabili 2004 og jókst um 6,3% á milli tímabila.

Framlag í afskriftareikning útlána lækkar á milli tímabila um 55,8%. Framlag fyrstu sex mánaða ársins nam 101 milljón króna en á sama tímabili 2004 nam framlagið 227 milljónum króna. Afskriftareikningur útlána nam 507 milljónum króna 30. júní 2005 en það svarar til 1,6% af útlánum og veittum ábyrgðum en hlutfallið um síðustu áramót var 2,0%. Framlag í afskriftareikning útlána endurspeglar ekki endilega töpuð útlán, heldur er um að ræða fjárhæð sem lögð er til hliðar til að mæta hugsanlegum útlánatöpum.