Hagnaður Vinnslustöðvarinnar var 87 milljónir króna á fyrstu níu mánuðum ársins en á sama tímabili í fyrra var hagnaðurinn 480 milljónir króna. Hagnaður dróst því saman um 82%. Skýringa þessara breytinga er fyrst og fremst að leita í fjármagnsliðum félagsins, segir í tilkynningu.

Heildartekjur félagsins voru 4.484 milljónir króna og jukust um 25,7% frá sama tímabili í fyrra. Tekjur fiskvinnslu jukust um 50,4% en tekjur útgerðar jukust um 15,5%. Rekstrargjöld jukust um 15,6%.

Framlegð félagsins (hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði) er sú hæsta síðastliðin fimm ár. Hún nam 1.177 milljónum króna og jókst um 66,6% frá fyrra ári. Framlegðarhlutfall hækkaði úr 19,8% í fyrra í 26,3% í ár.

Fjármagnskostnaður félagsins nam 637 milljónum króna á fyrstu níu mánuðunum, þar af nam gengistap 603 milljónum króna. Á sama tímabili í fyrra voru fjármagnsliðir jákvæðir um 118 milljónir króna.

Veltufé frá rekstri nam 1.146 milljónum króna og var 25,5% af rekstrartekjum. Veltufé frá rekstri jókst um 61,8% frá sama tímabili í fyrra.

Afskriftir lækkuðu um tæpar 17 milljónir króna frá fyrra ári og voru liðlega 258 milljónir króna.

Tekjur Hugins ehf., hlutdeildarfélags Vinnslustöðvarinnar, voru 352 milljónir króna og framlegð þess á tímabilinu var neikvæð um 43 milljónir króna. Tap félagsins eftir skatta nam 299 milljónum króna, þar af nam gengistap félagsins 171 milljón króna. Hlutdeild Vinnslustöðvarinnar í þessu tapi Hugins ehf. nam 144 milljónum króna.