Credit Suisse tilkynnti í dag að versnandi skilyrði á lánsfjármörkuðum og röng verðlagning á ýmsum skuldabréfum myndu minnka hagnað bankans um allt að einn milljarð bandaríkjadala á fyrsta fjórðungi. Í kjölfar þessara fregna hröpuðu bréf bankans um 6.6%, að því er kemur fram hjá Bloomberg.

Credit Suisse, sem er næststærsti banki Sviss, niðurfærði um 2.85 milljarða dala af eignatryggðum skuldabréfum eftir að innri skoðun leiddi í ljós að nokkrir miðlarar innan bankans höfðu gert hrapalleg mistök og stórlega ofmetið ákveðnar eignir. Í yfirlýsingu frá bankanum kom jafnframt fram að það yrði skoðað hvort þessar nýju fregnir hefðu áhrif á afkomu ársins 2007. Talið er að þetta muni rúa bankann öllu trausti.

Greiningaraðilar trúðu vart sínum eigin eyrum við þessi tíðindi. Georg Kanders, sérfræðingur hjá greiningarfyrirtækinu WestLB í Dusseldorf í Þýskalandi, sagði í viðtali að þessi tíðindi myndu setja þrýsting á fjármálageirann að nýju. „Að tilkynna þetta viku eftir afkomufund síðasta árs er stórt áfall," segir Kanders. WestLB hafði fyrir stuttu mælt með kaupum í Credit Suisse.