Breska smásölukeðjan Woolworths, sem Baugur á 28% hlut í gegnum Unity-fjárfestingarfélagið, sem einnig er í eigu FL Group, greindi frá því í gær að hagnaður fyrirtækisins fyrir skatta og óregluleg gjöld hefði lækkað um 62% á síðasta fjárahagsári. Framkvæmdastjóri Woolworths, Trevor Bish-Jones, sagði að minnkandi sölutekjur félagsins væru "vonbrigði."

Hagnaður Woolworths á fjárhagsárinu, sem lauk þann 3. febúar síðastliðinn, var 21,8 milljarðar punda fyrir skatta og óregluleg gjöld, samanborið við 57,7 milljarða punda hagnað árið 2005. Spár greiningaraðila höfðu að meðaltali gert ráð fyrir hagnaði í kringum 20 milljarða punda. Hins vegar var ein helsta ástæðan fyrir því að afkoma Woolworths var í samræmi við þær væntingar sú að fyrirtækið ákvað að breyta uppgjörsaðferð sinni, sem aftur gerði það að verkum að hagnaður félagins var 9 milljörðum punda meiri heldur en hann hefði annars verið. Steve Davies, sérfræðingar hjá fjárfestingarbankanum Numis Securities, sagði að sökum þessa hefðu menn ákveðnar "efasemdir í garð fyrirtækisins".

Davies heldur því einnig fram að gengi hlutabréfa í Woolworths segi lítið til um frammistöðu þess, heldur skýrðist hátt gengi félagsins fremur af þeim orðrómi að hugsanlegt tilboð í fyrirtækið sé í vændum. Í þeim efnum er einna helst rætt um tilboð frá Baugi enda þótt sérfræðingar hafi ítrekað sagt að þeir búist ekki við því að Baugur muni reyna að yfirtaka félagið. Annar sérfræðingur sagði aftur á móti að góðu fréttirnar í tengslum við uppgjör Woolworths væru þær að arðgreiðslur til hluthafa yrðu þær sömu og árið áður, eða 1,34 pund á hvern hlut.

Framkvæmdastjórinn Bish-Jones sagði í samtali við fréttamenn í gær að hann hefði lagst gegn öllum hugmyndum um að selja tilteknar rekstrareiningar fyrirtækisins. Breskir fjölmiðar greindu frá því í september á síðasta ári að Baugur hefði hvatt til þess að fyrirtækinu yrði skipt upp og afþreyingareiningin 2 entertain yrði seld.

Hörð samkeppni á smásölumarkaðinum var helsta ástæða þess að sölutekjur Woolworths drógust saman um 4,2 milljarða punda á árinu, úr 17,1 milljarði punda, fremur en að kostnaðarliðir fyrirtækisins hefðu aukist, að sögn Bish-Jones. Framkvæmdastjórinn sagðist einnig gera ráð fyrir því að smásölumarkaðurinn yrði mjög erfiður á núverandi fjárahagsári. Þrátt fyrir að fyrstu sjö vikur ársins hefðu byrjað vel væri enn alltof snemmt að segja til um áframhaldið.