Hagnaður Eimskips eftir skatta nam 985 milljónum króna fyrir fyrstu tíu mánuðum síðasta árs sem er 35% hagnaðaraukning frá sama tímabili árið á undan, segir í tilkynningu til Kauphallar Íslands. Hagnaður á sama tímabili fyrir fjármagnsliði og afskriftir (EBITDA) nam 2.615 milljónum króna.

Eimskip segir að hagnaðaraukninguna má rekja til þeirra breytinga sem farið var í á síðasta ári, svo sem einföldunar á stjórnskipulagi, ákvörðunar um akstur innanlands í stað strandsiglinga og nýrra arðbærra verkefna erlendis. Þá voru meiri flutningar á árinu 2005 en árið áður. Hátt olíuverð og óhagstætt gengi, sem og stórt tjón í ársbyrjun, höfðu hins vegar neikvæð áhrif á afkomu félagsins.

Heildareignir í lok október síðasliðinn námu 25,9 milljörðum króna. Eiginfjárhlutfall var 28,8% og veltufjárhlufall 1,42.

Eimskip hefur ákveðið að breyta reikningsári félagsins til samræmis við reikningsár Avion Group hf, sem nær yfir tímabilið 1. nóvember til 31. október. Vegna þessa er reikningsárið 2005 aðeins tíu mánuðir og nær yfir tímabilið 1. janúar til 31. október 2005. Samanburðarfjárhæðir frá fyrra ári í rekstrarreikningi taka hins vegar til 12 mánaða 2004.