Hagnaður mið-austurlenska flugfélagsins Emirates Airline dróst saman um 88% fyrstu níu mánuði ársins.

Að sögn BBC má að mestu rekja mikinn samdrátt í hagnaði félagsins til hækkandi olíuverðs.

Hagnaður félagsins fyrstu níu mánuði ársins nam um 77 milljónum Bandaríkjadala samanborið við um 640 milljóna dala hagnað á sama tíma í fyrra.

Í uppgjörstilkynningu frá félaginu kemur fram að eldsneytiskostnaður félagsins hafi farið um 470 milljónum dala fram úr áætlun.

Emirates Airline er í eigum yfirvalda í Dubai. Félagið hefur nú þegar fengið afhendar tvær Airbus A380 risaþotur og á 10 slíkar pantaðar.