Rekstrartekjur samstæðu Jarðborana fyrstu sex mánuði ársins 2005 námu 2.312 milljónum króna, en voru 1.562 milljónir á sama tíma árið á undan og jukust því um 48%. Rekstrargjöld fyrirtækisins með afskriftum á tímabilinu voru 1.876 milljónir, samanborið við 1.239 milljónir á sama tíma árið áður og hækkuðu því um 51%. Rekstrarhagnaður samstæðu Jarðborana á fyrstu sex mánuðum ársins 2005, fyrir fjármagnsliði og skatta, nam 436 milljónum króna en var 323 milljónir á sama tíma árið á undan. Fjármagnsgjöld félagsins á tímabilinu voru 66 milljónir króna borið saman við 102 milljónir árið á undan.

Hagnaður fyrir skatta er 370 milljónir króna, samanborið við 220 milljónir á sama tíma árið áður. Reiknaðir skattar voru 71 milljón borið saman við 40 milljónir árið áður. Hagnaður á fyrstu sex mánuðum ársins nam því 299 milljónum en var 180 milljónir á sama tíma 2004. Hagnaðurinn samsvaraði 12,9% af heildartekjum, samanborið við 11,5% af heildartekjum fyrstu sex mánuði ársins 2004. Veltufé frá rekstri var 462 milljónir króna en var 313 milljónir á sama tíma á fyrra ári. Veltufjárhlutfall er 1,9.