Hagnaður Sparisjóðs Vestmannaeyja á fyrstu sex mánuðum ársins fyrir reiknaða skatta nam 78,3 millj. kr. en 64,4 millj. kr. að teknu tilliti til reiknaðra skatta samanborið við 74,7 millj. kr. á sama tímabili árið áður. Heildarrekstrartekjur námu 338,8 millj. kr. og heildarrekstrargjöld námu 260,5 millj. kr. að meðtöldum afskriftum. Hreinar rekstrartekjur voru 211,9 millj. kr. samanborið við 206,1 millj. kr. á sama tímabili árið áður og nam aukningin 2,8%.

Bókfært eigið fé Sparisjóðsins í lok júní 2004 var 698,7 millj. kr. og hafði aukist á árinu um 10,2%. Eiginfjárhlutfall samkvæmt CAD-reglum var 13,1% en má lægst vera 8% af útreiknuðum áhættugrunni. Í lok júní 2004 var niðurstaða efnahagsreiknings 4.697,8 millj. kr. og hafði hækkað um 4,1% á árinu.

Innlán og verðbréfaútgáfa Sparisjóðsins nam í júnílok 3.384,2 millj. kr. og höfðu aukist um 7,2% á árinu, en innlán ein og sér um 7,6% þar sem verðbréfaútgáfa hækkaði aðeins um 4,7%.

Heildarútlán að meðtöldum fullnustueignum námu í júnílok 2.858,8 millj. kr. og höfðu lækkað um 1,7% á árinu.

Langstærstu útlánaflokkarnir voru eins og áður til einstaklinga og íbúðalána eða tæplega 60% í lok júní. Hlutur sjávarútvegs í heildarútlánum var tæplega 24%. Hlutfall útlána til verslunar, þjónustu- og annarar atvinnustarfsemi var rúmlega 16%. Lán til ríkis og bæjarfélaga voru innan við 1%. Á árinu er meginbreyting útlána sú að hlutur einstaklinga hækkar en útlán til almennrar atvinnustarfssemi, aðalega sjávarútvegs lækkar samsvarandi.

Árshlutareikningurinn er gerður eftir kostnaðarverðsaðferð og við gerð hans er í meginatriðum fylgt sömu reikningsskilaaðferðum og á fyrra ári.

Sparisjóður Vestmannaeyja er traust alhliða fjármálafyrirtæki, stofnað á árinu 1942 og hefur því starfað í yfir 60 ár. Sparisjóðurinn rekur sérhæfða fjármála- og bankaþjónustu með tvo afgreiðslustaði, í Vestmannaeyjum og á Selfossi, Sparisjóðurinn Suðurlandi. Þá á Sparisjóðurinn tæplega 77% alls stofnfjár Sparisjóðs Hornafjarðar og nágrennis.

Hjá Sparisjóðnum eru stöðugildi við bankastörf 18,5 á árinu 2004 bæði í Vestmannaeyjum og á Selfossi. Sparisjóður Vestmannaeyja er sjálfseignarstofnun í höndum 70 stofnfjáraðila sem allir eru með jafnan hlut. Fjöldi stofnfjáreigenda hefur verið óbreyttur um nokkurra ára skeið.

Á starfsárinu, frá síðasta aðalfundi hafa setið í stjórn, Þór Í Vilhjálmsson, formaður og Arnar Sigurmundsson, varaformaður. Aðrir í stjórn eru: Gísli Geir Guðlaugsson, Ragnar Óskarsson og Skæringur Georgsson.