Hagnaður Eyrir Invest árið 2006 nam 1,7 milljörðum króna eftir skatta sem jafngildir 17,5% arðsemi eiginfjár á árinu, segir ársuppgjöri sem birt er hjá Kauphöllinni, samanborið við 4,1milljarð króna árið 2005.

Í tilkynningu segir að hlutabréfamarkaðir á Norðurlöndum voru hagfelldir og náðist góður árangur í almennum fjárfestingum félagsins. Raunvirði stærstu eignarhluta félagsins í Marel og Össuri jókst samfara arðsömum vexti í takt við stefnu félaganna.

Heildareignir í árslok eru 26.265 milljónir króna og hafa aukist um tæp 50% frá upphafi árs, samanborið við 17.569 milljónir króna árið 2005. Eigið fé í árslok 2006 nam 11.981 milljónum krónar til samanburðar við 9.617 milljónir króna í árslok 2005.

Fjárhagur félagsins er traustur og eiginfjárhlutfall í lok ársins 2006 reiknast 46%, skattskuldbinding 6% og nettó vaxtaberandi skuldir 48%. Eyrir Invest jók hlutafé á árinu um 10% að nafnverði með innkomu nýrra sterkra hluthafa. Allar eignir eru fjármagnaðar innan efnahagsreiknings og engar skuldbindingar vegna framvirkra hlutabréfasamninga eru utan efnahagsreiknings.

Það er stefna Eyrir Invest að fjármagna eignarhluta í öðrum félögum til langs tíma. Meðallíftími vaxtaberandi skulda er um 3 ár með meginþunga endurgreiðslna á árunum 2009 og 2012.

Útgefin skuldabréf sem skráð eru í Kauphöll Íslands með gjalddaga árið 2012 eru að nafnverði 2.600 milljónir króna, þar af voru skuldabréf fyrir 1.160 milljónir króna útgefin á árinu 2006.

Undirliggjandi verðmæti áhrifafjárfestinga í Marel og Össuri er traust og hefur aukist til muna í samræmi við stefnumörkun félaganna.

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Eyrir Invest ehf., segir afkomu félagsins viðunandi. Árið var mikið umbreytingarár hjá stærstu félögum okkar, Marel og Össuri, sem einkenndist af miklum vexti með yfirtökum og samþættingu rekstrar. Sú vinna sem þegar er hafin í félögunum mun auka raunvirði þeirra umtalsvert á komandi misserum. Horfur framundan eru góðar og markmið Eyris Invest um 20% árlega meðalarðsemi eiginfjár stendur óbreytt.

Fjárhagslegur styrkleiki

Eiginfjárhlutfall í árslok nam 46%, tekjuskattsskuldbinding rúmum 6% og vaxtaberandi skuldir námu 48%. Allar eignir eru fjármagnaðar innan efnahagsreiknings og engir framvirkir hlutabréfasamningar eru utan efnahagsreiknings. Meðallíftími skulda er þrjú ár, þar sem meginhluti þeirra kemur til greiðslu á árunum 2009 og skuldabréfaútboð félagsins á árinu 2012.

Eignir og skuldir í erlendum gjaldmiðlum

Yfir 95% af tekjum félaga í eignasafni Eyris Invest eiga uppruna sinn utan Íslands. Skuldir umfram eignir í erlendum gjaldmiðlum námu rúmum fimm milljörðum króna. Ef eignarhlutar í Össuri og Marel eru flokkaðir sem erlendar eignir snýst myndin við og eignir í erlendum gjaldmiðlum eru tæpum tíu milljörðum króna hærri en skuldir eða um tveimur milljörðum króna lægri fjárhæð en eigið fé félagsins.