Hagnaður af rekstri Eyris Invest nam 298 milljónum króna eftir skatt á fyrri hluta ársins samanborið við hagnað upp á 2,2 milljarða á sama tíma í fyrra.

Þetta kemur fram í afkomutilkynningu frá félaginu.

Þá kemur fram í árshlutareikning félagsins að tap Eyris Invest nemur fyrir skatt rúmum 1,4 milljörðum samanborið við hagnað upp á rúma 2,6 milljarða á sama tíma í fyrra.

Í tilkynningunni kemur fram að frá stofnun Eyris Invest á miðju ári 2000 hefur árleg hækkun á innra virði hlutafjár numið 39,8% að meðaltali til samanburðar við 6% neikvæða árlega meðalávöxtun heimsvísitölu MSCI fyrir sama tímabil, í báðum tilvikum mælt í evrum.

Heildareignir félagsins eru nú 58,3 milljarðar króna. Þá er eigið fé 18,2 milljarðar króna og reiknast eiginfjárhlutfall 31,3%

„Lausafjárstaða félagsins er sterk og væri laust fé notað til endurgreiðslu skulda reiknast eiginfjárhlutfall 40%,“ segir í tilkynningunni.

Allar skráðar eignir eru bókaðar á markaðsvirði og engir framvirkir samningar um hlutabréf eru opnir í lok uppgjörstímabils. Meðalendurgreiðslutími lántöku er 3 ár.

Þá kemur fram að eignasafn Eyris Invest er vel dreift á mismunandi atvinnugreinar „sem allar eru líklegar til að skila góðum og arðsömum vexti á næstu árum,“ eins og það er orðað í tilkynningunni.

Sátt þrátt fyrir erfiðar aðstæður

„Við erum sátt við að skila lítils háttar hagnaði á fyrri hluta ársins við afar erfiðar aðstæður á fjármálamörkuðum,“ segir Árni Oddur Þórðarson, forstjóri í tilkynningunni.

„Mest um vert er að við höfum skilað góðri ávöxtun í fortíð og höfum þolinmæði og styrk til að grípa þau tækifæri sem kunna að myndast í náinni framtíð.“

Hann segir Eyri Invest vera langtímafjárfestir í Marel, Össuri og Stork „sem eru öll að sýna góðan rekstur nú eftir tímabil mikils vaxtar.“

„Vöxtur félaganna hefur ekki verið tilviljanakenndur heldur byggst á áralangri stefnumörkun sem miðar að því að koma þeim í fremstu röð, hvert á sínu sviði,“ segir Árni Oddur.