Hagnaður af rekstri Eignarhaldsfélagsins Fasteign hf. á fyrri helmingi þessa árs var rúmlega 1,5 milljónir evra (197 milljónir króna) eftir skatta. Hagnaður alls ársins 2007 var tæplega 3,5 milljónir evra (435 milljónir króna).

Félagið var stofnað í lok ársins 2002 og á um 130 þúsund fermetra af húsnæði í rekstri eða á byggingarstigi. Verðmæti félagsins er metið á um 33 milljarða króna.

Eignarhaldsfélagið Fasteign gerir reikninga sína upp í evrum. Ríflega helmingur leigutekna félagsins, eða um 55%, er reiknaður í evrum en um 45% í íslenskum krónum. Leigutekjur á fyrstu sex mánuðum ársins námu 7,7 milljónum evra, eða um 962 milljónum króna, en voru allt árið 2007 tæplega fimmtán milljónir evra eða ríflega 1,8 milljarðar króna.

Rekstrargjöld voru á fyrri hluta ársins 2,6 milljónir evra (325 milljónir króna) en voru allt árið 2007 tæplega 5,4 milljónir evra (675 milljón króna). Fjármagnsgjöld námu á fyrri hluta ársins um 3,9 milljónum evra, eða um 487 milljónum króna en voru á árinu 2007 alls um 6,6 milljónir evra eða um 825 milljónir króna.

EBITDA sem hlutfall af leigutekjum nam 88,4% sem er umfram væntingar en í áætlunum félagsins var gert ráð fyrir að sú tala yrði 84%.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu.