Hagnaður af rekstri Fiskmarkaðs Íslands hf. á á fyrri helmingi ársins nam alls 45,9 milljónum króna. Þetta er nokkru lægri hagnaður en á sama tíma fyrir ári þegar hagnaðurinn var 52,7 milljónir króna. Velta félagsins var 264,5 milljónir króna borið saman við 272,6 milljónir fyrir ári.

Fiskmarkaður Íslands rekur uppboðsmarkað fyrir fisk í Ólafsvík, Grundarfirði, Stykkishólmi, Rifi, Arnarstapa, Akranesi, Reykjavík og Þorlákshöfn. Seld voru 29.375 tonn af fiski fyrir 3.450 millj. kr. og var meðalverð á kíló kr. 117 Á sama tímabili árið áður hjá Fiskmarkaði Íslands hf. voru seld 28.724 tonn af fiski fyrir 3.615 millj. króna og var meðalverðið á kiló kr. 126

Í yfirlýsingu frá félaginu til Kauphallarinnar segi:

"Þessi niðurstaða er nokkurn veginn í takt við væntingar stjórnenda, en þó heldur lakari en mestu væntingar stóðu til. Meðalverðið á seldum fiski heldur áfram að lækka og lækkar um 6,76% á milli ofangreindra rekstrartímabila. Hefur meðalverð fyrri ofangreint rekstrartímabil hæst verið kr.189 þannig að lækkunin frá þeim tíma þar til nú er orðin 38%. Þetta þýðir að sjálfsögðu sambærilega lækkun á tekjum Fiskmarkaðs Íslands af hverju seldu kílói. Magnið eykst hins vegar um 2,27% og vegur það örlítið upp á móti fyrrgreindri lækkun, þó fylgir vitanlega meiri kostnaður við aukið magn. Fjármagnsliðirnir eru og jákvæðir um kr. 8,5 millj. á tímabilinu og skýrist það af arðgreiðslum frá félögum, sem FMÍ á í, að andvirði kr 5.8 millj. og gengishagnaði erlendra lána. Eins og ávallt í þessum rekstri þá eru óvissuþættirnir margir, ma. þróun gjaldmiðla og fiskverðs og aflabrögð hjá viðskiptabátum félagsins og því varhugavert að gefa út nákvæmar afkomuspár fyrir árið. Þó má segja að rekstrarhorfurnar á yfirstandandi rekstrartímabili, þe. mán 7,8,og 9, eru heldur lakari en vonir stóðu til um. Aflabrögð og tíðafar hafa verið óhagstæð og það ásamt lélegri kvótastöðu viðskiptabáta félagsins hefur skilað sér í minna magni til sölu. Því til viðbótar hafa nokkrir af viðskiptabátum félagsins, á Faxaflóasvæðinu, verið seldir og því fyrirsjánlegt að samdráttur verður á því svæði.

Ekki hefur verið um neinar fjárfestingar eða breytingar í rekstri að ræða á tímabilinu sem hafa óvænt áhrif á afkomu félagsins."