Hagnaður FL Group samstæðunnar fyrir skatta á fyrsta ársfjórðungi 2006 var 6,644 milljarðar króna samanborið við 28 milljóna króna hagnað árið áður, segir í tilkynningu frá félaginu.

Að teknu tilliti til skatta var hagnaður tímabilsins 5,84 milljarðar króna, samanborið við 25 milljónir króna árið áður, og arðsemi eiginfjár á tímabilinu nam 33,8%.

Afkoma af fjárfestingastarfsemi nam tæpum tíu milljörðum króna fyrir skatta, en á sama tímabili nam árstíðarbundið tap rekstrarfélaga að frádregnum samrunakostnaði hjá Sterling 2,53 milljörðum króna. Að meðtöldum samrunakostnaði var tapið 3,33 milljarðar króna.

?Þessar niðurstöður undirstrika áherslur í fjárfestingarstarfsemi FL Group, einkum í framtaks- og umbreytingarverkefnum sem og stöðutöku í verðbréfum," segir í tilkynningunni.

FL Group lauk 15 milljarða króna kaupum á danska lággjaldaflugfélaginu Sterling á fyrsta ársfjórðungi og gengið var frá samningum um sölu Ferðaskrifstofu Íslands og Bílaleigu Flugleiða. Einnig var tilkynnt um skrániningu Icelandair í Kauphöll Íslands. FL Group seldi einnig 16,9% eignarhlut sinn í breska lággjaldaflugfélaginu easyJet á tímabilinu og nam söluhagnaðurinn rúmlega tólf milljörðum króna.

Heildareignir í lok ársfjórðungsins voru 188,1 milljarðar króna, og aukast um 55,5 milljarða króna frá ársbyrjun. Gjaldeyrisjöfnuður félagsins var jákvæður í erlendum myntum um 93 milljarða króna í lok ársfjórðungsins sem skilaði félaginu verulegum gengishagnaði. Eigið fé í lok ársfjórðungsins var 77,4 miljarðar króna og arðsemi eigin fjár á ársgrundvelli var 33,8%. Eiginfjárhlutfall í lok ársfjórðungsins var 45% að teknu tilliti til fjármögnunar á fyrirframgreiðslum vegna kaupa á 15 Boeing 737 800 flugvélum.

Töluvert tap var af flugrekstri félagsins og var afkoma Icelandair fyrir skatta neikvæð um 677 milljónir króna. Hagnaður félagsins fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) batnaði um 644 milljónir króna borið saman við óendurskoðaðar pro-forma tölur síðasta árs og var -265 milljónir króna. Tapið má rekja til árstíðabundinnar sveiflu, segir í tilkynningunni.

EBITDA Sterling var yfir væntingum stjórnenda eða -1,6 milljarðar króna án samrunakostnaðar, sem einnig má rekja má til árstíðabundinnar sveiflu. Að teknu tilliti til samrunakostnaðar nam EBITDA -2,4 milljörðum króna

Afkoma Sterling fyrir skatta var yfir væntingum stjórnenda eða -1.8 milljarðar króna. Að teknu tilliti til samrunakostnaðar nam afkoma félagsins -2,6 milljörðum króna