Hagnaður FL Group nam 44,6 milljörðum króna á árinu 2006 eftir skatta, samanborið við 17,25 milljarða árinu áður, en það er 158% aukning, segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Hagnaður á fjórða ársfjórðungi jókst um 215% í 33,6 milljarða króna.

Heildareignir jukust um 98% í 262,9 milljarða króna og eigið fé jókst um 92% í 142,6 milljarða króna.

Arðsemi eigin fjár nam 42,9% og eiginfjárhlutfall var 54,3%

Stjórn félagsins leggur til að greiddur verði 15,0 milljarða króna arður sem nemur um 33,7% af hagnaði ársins og 193% af nafnvirði hlutafjár í lok árs 2006, segir í tilkynningunni.

",Árangur FL Group á liðnu ári var einstaklega góður. Með því að dreifa og stýra áhættu félagsins tókst að skila methagnaði og meira en tvöfalda hann frá fyrra ári," segir Hannes Smárason, forstjóri FL Groupþ

"Á síðasta ársfjórðungi 2006 seldi FL Group dótturfélög sín, Sterling og Icelandair Group og þar með lauk að mestu fyrirhuguðum breytingum á félaginu þannig að nú er það hreint fjárfestingafélag með sterka fjárhagsstöðu og mikla fjárfestingagetu. Við horfum til ársins 2007 með mikilli bjartsýni og markmið okkar er að ná enn betri árangri en náðist á árinu 2006,? segir Hannes.

Stærstu hluthafar FL Group eru: Oddaflug B.V (19,8%), í eigu Hannesar Smárasonar, forstjóra; Baugur Group (18,2%); Gnúpur fjárfestingafélag (17,2%) og Icon og Materia Invest (10,7%). Í sumum tilfellum eru hlutirnir skráðir á nafn íslenskra fjármálafyrirtækja vegna framvirkra samninga.