HB Grandi, stærsta útgerðarfélag landsins mælt í þorskígildistonnum, tapaði 1,4 milljónum evra á fyrri hluta ársins samanborið við sex milljóna evra hagnað árið áður.

Það vekur athygli að hagnaður fyrir tekjuskatt nam 2,5 milljónum evra og var því tekjuskattur 3,9 milljónir EUR. Þetta helgaðist af því að tekjuskattur er reiknaður samkvæmt framtali í íslenskum krónum en árshlutareikningurinn byggir á bókhaldi í evrum.

Vegna gengisbreytinga varð verulegur munur á skattalegri og bókhaldslegri afkomu. EBITDA-hlutfall á fyrri hluta ársins var 31,5% af rekstrartekjum og hækkaði um 10,2 prósentustig á milli ára vegna áhrifa loðnuvertíðar sem ekki varð árið áður.