Hagnaður bresku tískuvöruverslanakeðjunnar French Connection hefur dregist verulega saman og nam 5,1 milljón punda (578 milljónir íslenskra króna) fyrir skatta á fyrsta helmingi ársins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fréttaveitu kauphallarinnar í London. Sérfræðingar í Bretlandi segja árangur félagsins vel undir væntingum en í fyrra var hagnaður fyrir skatta 16,2 milljónir punda.

Baugur á nú tæpan 10% hlut í félaginu en félagið keypti um 6,5% hlut í French Connection í gær fyrir um 18 milljónir punda, samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins.

Í tilkynnigu til kauphallarinnar í London er haft eftir stjórnanda og stofnanda French Connection, Stephen Marks, að smásöluumhverfið í Bretlandi sé mjög þungt og að síðastliðna sex mánuði hafi róðurinn verið fyrirtækinu erfiður. Söluvæntingar sem höfðu verið gerðar til sumarvaranna stóðust ekki en French Connection vonast til að heildsalan og smásalan á vetrarvörunum muni skila betri afkomutölum næstu sex mánuðina.

Sérfræðingar telja að Marks hafa áhuga á að afskrá félagið og endurkaupa hlutabréf þess í samvinnu við aðra fjárfesta. Baugur hefur verið nefndur í þessu samhengi en Jón Ásgeir Jóhannesson hefur sagt að félagið muni ekki ráðast í yfirtökur á skráðum félögum fyrr en niðurstaða hefur fengist í Baugsmálinu.

Samdráttur í smásölu á Bretlandi hefur ekki verið örari í 22 ár. Þrátt fyrir dapran árangur French Connection er gengi þess ágætt í Norður-Ameríku en þar hefur félagið aukið afkomu sína. Hins vegar er ljóst að heildarafkoman í ár verður lakari en vonast hafði verið til.

Haft er eftir sérfræðingum í London að French Connection sé ekki nógu vel staðsett á tískumarkaðnum. Markaðsumhverfið hefur breyst gífurlega mikið frá árdögum French Connection og félagið hefur ekki náð að þróast í takt við breytta tíma og harðnandi samkeppni. Virðist félagið vanta mun betri markaðskima fyrir vörur sínar. Vörur French Connection eru dýrari en vörur hjá Zara, TopShop og H&M og geta því ekki keppt við þær, eins telja sérfærðingar að French Connection sé ekki nógu mikil gæðavara til að keppa við dýrari hönnunarvörur.