Hagnaður tískuvöruverslunarinnar French Connection (FCUK) lækkaði um 99% á síðasta ári frá því árið áður, samkvæmt afkomutilkynningu sem fyrirtækið sendi frá sér í gær. Nam hagnaður félagsins aðeins hundrað þúsund sterlingspundum á nýliðnu fjárhagsári sem lauk 31. janúar síðastliðinn, samanborið við 9,7 milljón punda hagnað fyrir ári síðan, en FCUK hefur ekki verið rekið með tapi í fjórtán ár. Fjárfestingarsjóðurinn Unity Investment, sem er í eigu Baugs, FL Group og breska athafnamannsins og stofnanda Karen Millen, Kevin Stanford, á 19,6% hlut í French Connection.

Stephen Marks, forstjóri tískuvöruverslunarinnar, sagði að afkoma félagsins væri mikil vonbrigði. Hins vegar séu vísbendingar um að næsta fjárhagsár verði mun betra fyrir rekstur fyrirtækisins, þar sem nýlegar tölur sýna að salan hefur verið að aukast um meira en tíu prósent í verslunum FCUK í Bretlandi og Evrópu undanfarnar vikur.

Að meðatali spá greiningaraðilar því að hagnaður félagsins á núverandi fjárhagsári fyrir skatta verði í kringum 7,5 milljónir punda. Hlutabréf FCUK höfðu lækkað um 1,7% á hádegi í gær. Stjórnendur fyrirtækisins ákváðu að greiða jafn mikinn arð til hluthafa og árið 2006, eða 5 penní á hlut.