Hagnaður Frjálsa fjárfestingarbankans hf. á árinu 2004 nam 511 milljónum króna sem er 5% lakari afkoma samanborið við rekstrarárið 2003 en þá nam hagnaðurinn 539 milljónum króna. Ef hins vegar hagnaður áranna er skoður fyrir reiknaða skatta þá jókst hagnaðurinn um 24% á milli ára eða úr 503 milljónum króna árið 2003 í 623 milljónir króna árið 2004. Eigið fé bankans var rúmlega 3,4 milljarðar króna í lok ársins 2004 og nam arðsemi eigin fjár á árinu 17,4%. Eiginfjárhlutfall á CAD grunni var 33,4% í lok ársins en má lægst vera 8% samkvæmt lögum.

Hreinar vaxtatekjur á árinu 2004 hækkuðu um 22% frá árinu 2003 og námu 882 milljónum króna samanborið við 724 milljónir króna árið 2003.

Aðrar tekjur námu 191 milljónum króna samanborið við 105 milljónir króna árið 2003 og nemur hækkun annarra rekstrartekna 82% á milli ára. Kostnaður sem hlutfall af tekjum lækkaði lítillega á milli ára og nam 26,6% árið 2004 samanborið við 28,2% árið 2003.

Útlán hækkuðu um 26% frá áramótum og námu í lok ársins rúmum 17 milljörðum króna. Af útlánum bankans eru 95% tryggð með fasteignaveði.

Vanskil sem hlutfall af heildarútlánum námu í lok ársins 0,8% og er það sama hlutfall og í lok ársins 2003. Hlutfall afskriftarreiknings útlána af útlánum og veittum ábyrgðum nam 2,6% í lok ársins en hlutfallið nam 2,3% í lok ársins 2003.

Horfur á árinu 2005 eru góðar. Bankinn hefur sterka eiginfjárstöðu sem rennir stoðum undir frekari vöxt útlána og stækkun efnahagsreiknings.

Aðalfundur Frjálsa fjárfestingarbankans hf. verður haldinn fimmtudaginn 3. mars kl. 15:00. Stjórn bankans mun leggja það til á aðalfundinum að ekki verði greiddur arður vegna ársins 2004.