Hagnaður Føroya Banka [ FO-BANK ] eftir skatta á fyrri helmingi ársins í ár minnkaði verulega, úr 84 milljónum danskra króna (um 1,38 milljarðar íslenskra króna) í 21 milljón danskra króna (um 344 milljónir íslenskra króna).

Hagnaður bankansá öðrum ársfjórðungi var mikið undir meðalspá íslensku greiningardeildanna. Hagnaður fjórðungsins var 9 milljónir danskra króna en spáin hljóðaði upp á 30 milljónir danskra króna í hagnað.  Á sama tíma fyrir ári var hagnaðurinn 144 milljónir danskra króna.

Það sem einkum veldur þessum mikla mun er að verðgildi danskrar verðbréfaeignar bankans minnkaði á tímabilinu um 39 milljónir danskra króna í ár, en hækkaði á sama tímabili í fyrra um 11 milljónir danskra króna.

Í fréttatilkynningu frá bankanum segir að lausafjárstaða hans sé góð.

Á milli ára hafa innlán bankans aukist um 725 milljónir danskra króna og nema nú 5,6 milljörðum.

Føroya Banki heldur sig við afkomuspá sína fyrir árið, um 165-185 milljóna danskra króna hagnað fyrir skatta og fjármagnsliði.