Hagnaður Glitnir eftir skatta á fyrsta ársfjórðungi var 7,0 milljarðar samanborið við 9,1 milljarð á fyrsta ársfjórðungi 2006. Hagnaður eftir skatta á fjórða ársfjórðungi 2006 var 9,3 milljarðar.

Hagnaður fyrir skatta á fyrsta ársfjórðungi nam 8,4 milljörðum samanborið við 11,2 milljarða á fyrsta ársfjórðungi síðasta árs. Hagnaður fyrir skatta á fjórða ársfjórðungi 2006 var 11,6 milljarðar.

Á fyrstu þremur mánuðum ársins myndaðist 42% af hagnaði bankans fyrir skatta af starfsemi utan Íslands eða 4,8 milljarðar.

Hreinar vaxtatekjur á fyrsta ársfjórðungi voru 7,9 milljarðar samanborið við 7,8 milljarða á fyrsta ársfjórðungi 2006. Hreinar vaxtatekjur voru 8,4 milljarðar á fjórða ársfjórðungi árið 2006.

Þóknanatekjur á fyrsta ársfjórðungi ársins námu 7,3 milljörðum og jukust úr 5,6 milljörðum frá fyrsta ársfjórðungi árið 2006. Þóknanatekjur voru 10,3 milljarðar á fjórða ársfjórðungi 2006.

Arðsemi eigin fjár eftir skatta á fyrsta ársfjórðungi var 20,5% en var 42% á fyrsta ársfjórðungi 2006. Arðsemi eiginfjár eftir skatta án gengishagnaðar á ársfjórðungnum var 18,5%.

Heildareignir jukust um 9,6 milljarða króna á ársfjórðungnum í 2.256 milljarða. Þar af námu lán til annarra en lánastofnana 1.521 milljörðum króna og lækkuðu um 85 milljarða eða 5,6%, útlán á gangvirði hjá BNbank eru meðtalin. Lækkunin endurspeglar gengislækkun íslensku krónunnar.

Endurfjármögnun ársins um 2,7 milljarða er nú lokið. Innlán sem bankinn hóf að taka við í Bretlandi í október 2006 námu 1 milljarði evra í lok apríl 2007.

Eignir í stýringu jukust um 10% á fyrsta ársfjórðungi og eru 541 milljarðar króna. Glitnir keypti 68,1% í fjárfestingarfélaginu FIM Group í febrúar 2007 og mun félagið verða hluti af samstæðureikningi Glitnis frá og með 1. apríl 2007.

Eigið fé nam 153 milljörðum króna í lok mars, sem er aukning um 5% frá byrjun ársins. Eiginfjárhlutfall á CAD-grunni var 14,2%, þar af A-hluti 11,6%.

"Árið byrjar vel hjá Glitni," segir Bjarni Ármannsson, forstjóri Glitnis "Afkoman er traust og góður gangur á bankanum. Kaupin á FIM í Finnlandi og uppbygging alþjóðlegs Eignastýringasviðs endurspegla þá stefnu bankans að auka þjónustutekjur enn frekar og vera virkir þátttakendur á norrænum fjármálamarkaði. Aukinn kostnaður á fyrsta ársfjórðungi stafar af auknum umsvifum og þeirri skýru stefnu að styrkja innviði bankans, en einnig af fjárfestingum sem er ætlað að styðja við frekari vöxt. Við upphaf annars ársfjórðungs erum við því bjartsýn og horfum til áframhaldandi uppbyggingar," segir hann.