Hagnaður Glitnis á öðrum ársfjórðungi var verulega umfram spá greiningardeildar Kaupþings banka en hún spáði 8,1 milljarði króna í hagnað en reyndin var 11 milljarða króna hagnaður eftir skatta.

?Stafar hærri afkoma einkum af hærri þóknanatekjum á tímabilinu, sem og hærri gengishagnaði og öðrum fjárfestingartekjum. Vaxtatekjur voru í samræmi við væntingar og námu 11,5 milljörðum króna á fjórðungnum. Er það rúmlega tvöföldun frá sama tíma í fyrra og um 47% aukning frá rúmlega 7,8 milljarða króna hreinum vaxtatekjum bankans á fyrsta ársfjórðungi," segir greiningardeildin.

Hún segir að líkt og hjá hinum íslensku bönkunum má rekja þessa miklu aukningu vaxtatekna til mikillar verðbólgu á liðnum fjórðungi og áhrifa veikingar krónunnar, á fyrri hluta ársins, til stækkunar efnahagsreiknings.

?Líkt og í tilfelli Landsbankans gerum við ráð fyrir að hreinar vaxtatekjur Glitnis muni dragast nokkuð saman á komandi fjórðungum þar sem við eigum von á að verðbólguáhrifin verði heldur minni á komandi fjórðungum. Jafnframt eigum við von á að útlánavöxtur bankans verði lítill á síðari hluta ársins," segir greiningardeildin.